top of page
Search

Vertu svo líka sæt

Updated: Dec 3, 2020

Þegar faðirinn kemur heim af átta klukkustunda langri vakt á sunnudegi eru viðbrögðin á við að vinsæll og frægur þjóðhöfðingi hafi stigið fæti inn fyrir hússins dyr. Yngra barnið ælir á gólfið (líklegast af ofáti frekar en geðshræringu en látum það liggja á milli hluta) og það eldra hoppar af kæti og stígur villtan stríðsdans í forstofunni (á bol og sokkum einum klæða).


Móðirin sem tekur á móti föðurnum er hins vegar langt frá þeirri fullkomnu ímynd sem heimurinn hefur af maka þjóðhöfðingja. Hún er í náttbuxum sem hafa verið þaktar með gubbi, hárið er í tættu tagli og brjóstahaldarinn víðsfjarri. Gamla flíspeysan sem strengist yfir magannn er sér kapítuli. Sá státaði eitt sinn af magavöðvum en er nú fyrrum híbýli tveggja yndislegra barna. Já móðirin lítur út eins og eldabuskan á heimili þjóðhöfðingjans og það eftir annasaman dag við snittugerð og tilbehör.


Heimili þjóðhöfðingans er eins og eftir milliríkjadeilu eða árásarher sem hefur látið greipar sópa og skilið eftir það sem ekki þótti nýtilegt á víð og dreif um heimilið. Móðirin þurfti að taka að sér hlutverk sáttarsemjara, dómara og lögreglu á milli þess sem hún töfraði fram kræsingar, slökkti elda og plokkaði leir úr litlum nösum.


Hún á því enga umframorku til að halda uppi samræðum, hvað þá að vera sæt og sexí. Það eina sem hún þrái er að fá að sitja í þögn, kannski leysa krossgátu, fara í heitt bað, lesa og fá sér smá tár eða súkkulaði. Ætli sé ekki bara best að þjóðhöfðinginn sjái um þegna sína á meðan...



31 views0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page